Háfleygt úr Hafnarfirðinum

Vangaveltur og veruleiki

laugardagur, júní 04, 2005

Í þessum skrifuðum orðum standa synir mínir þrír og eiginmaður í röð við nýja verslun BT í Hafnarfirði.... já margt er mannanna bölið.... Aðalsteinn og Jóhann fóru eldsnemma í morgun með síma og Game Boy til að standa í röð og kaupa sér tölvuleik á 799 krónur. Það sem verra var að þegar taldir voru sjóðir þeirra bræðra átti hvorugur nóg. Aðalsteinn sem átti 300 krónur var fljótur að telja bróður sinn á það að fjarfesta í einhverju saman enda átti Jóhann 500 í sínu veski. Hófust hér strax við sólarupprás miklar samningaumræður og eftir mikið japl og múður náði frumburðurinn að sannfæra tvistinn um ágæti þess að kaupa sér tölvuleik um hásumar. Héldu bræður af stað með aurana sína tilbúnir að leggja allt í sölurnar til þess að komast með þeim fyrstu í BT. Eftir 15 mín og 34 sek hringdi Jóhann og sagði að sér leiddist þetta heldur og vildi helst komast heim til mömmu sinnar. Aðalsteinn var alls ekki á því að hleypa honum heim þeir væru nr 49 og 50 í röðinni og gætu svo sannarlega komist í feitt. Þegar korter var í opnunartíma fór svo faðir þeirra og litli bróðir að vitja um þá. Bræður voru fílelfdir og tilbúnir í slaginn en það voru líka fullorðnir Hafnfirðingar sem ruddust fram fyrir börn og unglinga. Númerið á þeim bræðrum hafði hækkað til muna og þegar ég talaði við bónda minn áðan voru þeir ekki enn komnir inn í búðina og því ólíklegt að synir mínir fjárfesti í tölvuleik í þessari ferð. Enda nóg til af slíku hér á bæ!!!! En svona er Ísland í dag...
Guð blessi þá sem er svo auralitlir að þeir verða að riðjast fram fyrir unglinga og börn til að kaupa sér nýtt heimabíó á 45% afslætti!!!!!!!!!

1 Comments:

Blogger GUNNA said...

Já sælir eru fátækir......því þeirra er Guðsríki. Verði þeim að góðu !!

10. júní 2005 kl. 16:57  

Skrifa ummæli

<< Home