Það er nú meira standið á bænum. Óttar minn endaði afmælisdaginn sinn á þvið að verða svona hastalega veikur. Var farið með þá bræður báða til læknis og kom í ljós að Óttar er með streftakokka í hálsi og fékk hann því pensilín sem hann vill ekki taka og Högninn fékk nefdropa og róandi fyrir nóttina. Óttar hefur aldrei tekið inn lyf og er ekki á því að gera það í nánustu framtíð. Eftir aðhafa gubbað og frussað, hrækt og hóstað öllu rándýra lyfinu í gær var brugðið á það ráð að gefa honum sjeik með augmentínsúkkulaðibragði sem féll svona lika vel í kramið. Það sem verra er að hann á að fá 5 ml 3 sinnum á dag og þýðir það þá ansi mikið sjeikát næstu vikuna.... reyndar var tilbrigði af engjaþykkni með jarðarberjaaumentínbragði á boðstólum í morgun og fór næstum því allt upp í hann nema þegar hann hnerraði, en þá komu örugglega 2 ml á móðurina, ekki gat ég efnagreint hve mikið var engjaþykkni og hve mikið var lyf en eitthvað finnst mér grunnsamlega lítið eftir í lyfjaglasinu enda margir millilítrarnir farið til spillis. En hann er enn með bleikar kinnar, er með hita og lítill í sér, í allt of litlum heimafötum, Högninn er líka með hita og er nú loks sofnaður eftir að hafa vælt út brjóst móður sinnar, bitið hana og þurrkað í hana hor sem ekki verður mæli í millilítrum.....
Eldri synirnir eru alveg að fríka út á þessum ástandi, komast ekki neitt og mamman fremur upptökk og leiðinleg, pabbinn er á Vopnafirði af öllum pleisum og ekki von á honum fyrr en seint í kvöld. Kvöldvaka hjá Skátunum með tilheyrandi leikum í kvöld sem móðirin hlakkar gríðarlega mikið til að taka þátt í og gera sig að fílfli og syngja ginggangúlli gúlli..... en amma Lilla ætlar að koma og gæta sjúklinganna á meðan. Eina tilhlökkunarefni mitt þessa dagana er árshátíð á laugardagskvöldið, en ég hef ekki farið á árshátíð í fjögur ár og er því spennt. Reyndar setja veikindi drengjanna svolítinn skugga á þetta en vonandi verða þeir orðnir hressig og kátir og amman og afinn geti passað þá án nokkurra vandkvæða. Nú frúin er að viða að sér dressum hægri, vinstri og eru alls kyns kjólar og kyngimögnuð pils komin í hús. Einnig stendur til að sækja blússu eina í Kópavog sem ber nafnið drottinn blessi heimilið og gæti komið sterk inn. Hins vegar eru skómál frúarinnar ekki í nógu góðu standi. Í Fyrsta lagi hef ég aldrei átt mjög hælaháa skó því ég kann ekki að aganga á þeim og í annað stað finnst mér agalega leiðinlegt að vera á skóm á böllum sem ég get ekki dansað í... en ég finn út úr þessu , fer jafnvel bara í hvítu plast sólheimaklossunum ef ekki vill betur til...............
Jóhann var rétt í þessu að koma og minna mig á að klukkan væri orðinn meira en 12 og hann væri ekki búinn að fá neinn hádegismat.... í gær hringdi hann meðan við vorum hjá lækninum og spurði hvort við ætluðum virkilega að svíkja hann um kaffitímann, klukkan væri miklu meira en þrjú.... einn með allt á hreinu... vildiað bróðir hans væri svona meðvitaður um hvað tímanum líður....
Jæja best að gefa sonunum að eta einhvern andskotann, láta þá læra ofurlítið og fá sér kitkat til að lifa daginn af...
Í guðs friði...........
Háfleygt úr Hafnarfirðinum
Vangaveltur og veruleiki
fimmtudagur, október 28, 2004
þriðjudagur, október 26, 2004
Heimili og skóli ganga svo bæði aftur og fram af mér þessa dagana... eru þetta algjörlega misheppnuð samtök eða eru þau að djóka eins og Jóhann minn segir. Mér finnst til háborinnar skammar að vera að dreifa netföngum fólks í samningarnefndum og hvetja mig og aðra foreldra til að senda þeim fyrirfram ákveðninn texta til að flýta fyrir lausn mála í kjaraviðræðum kennara. Mér er sem ég sjái það skipta einhverju máli, fyrir utan það að þetta er bara sandkassaleikur og barnalegt.......... héldu menn virkilega að verkfallið myndi EKKI bitna á börnum..... á hverjum eiga verkföll kennara að bitna ef ekki börnunum í skólanum???.... bökurum eða skipstjórum?????....... og þessi fyrirfram ákveðni texti sem menn eru hvattir til að velja sér gæti drepið mann úr væmni. Það nýjasta hjá þessum samtökunum er að hvetja alla til að mæta á útifund á Austurvöll á morgun, sem er svo sem gott og vel, en það á að fleyta kertum á tjörnina... eins og gert er til að minnast þeirra sem fórust í kjarnorkusprengingunum í Hirosíma og Nakasaki.............. bíddu er þetta ekki full langt gengið........... er nú hægt að líkja þessu tvennu saman........... ég fæ kast, ég fæ kast.............
Ég verð að segja að ég er orðinn þannig að ég gleðst yfir hverjum degi sem kennara halda sínu striki og gefa ekki eftir, ég er stolt af því að vera kennari og finnst nánast miður að vera ekki þátttakandi í þessu verkfalli.
Reyndar fannst mér fyndin grein í Fréttablaðinu um helgina um kennarann sem er þéttholda og ljóshærð, barnagóð og hlédræg á daginn en breytist svo í kynlífsfíkil og vændiskonu eftir að barantímanum lýkur á RÚV. Maður hefur nú oft gantast með að maður þyrfti að drýgja tekjurnar á einhvern hátt og hefur þessi möguleiki verður nefndur í gamni á flestum kennarastofum landsins. Reyndar leyfi ég mér að efast um sannleika þessarar greinar og held að Mikael Torfa hafi bara komist á flug einhvern morguninn og fundist þetta fyndið - mér finnst það í það minnsta bara fyndið.
En annars er kallinn kominn heim og lífið farið að ganga sinn vanagang hér á bæ. Högninn eitthvað leiðinlegur á nóttunni og spurning um að hætta þessu brjóstastandi!!!! En hann er með hor og heitur á enni í dag, en ekkert sem áhyggjur er hafandi af.
Óttar Páll er hins vegar 3ja ára snáði í dag, svo fallegur og fínn. Hann heldur upp á afmæli sitt á leikskólanum með poppi og ís. Á sunnudaginn var hér dýrindis afmælisveisla þar sem hann lék við hvern sinn fingur og var bara býsna þægur þrátt fyrir mikinn æsing og árekstra við bræður sína.
Ætli ég baki ekki eitthvað í tilefni dagsins handa familíunni, nú og ef einhver skyldi líta inn....
Í guðs friði...
miðvikudagur, október 20, 2004
Þá kemur kallinn heim á morgun og er mikil tilhlökkun á bænum. Reyndar hefur þetta gengið vonum framar en ég verð voða glöð að fá kallinn heim.
Fór með synina sætu í Perluna á einhvern leikfangamarkað í morgun sem mér fannst bara skemmtilegt en þeir voru minna hrifnir, fannst allt eitthvað svo stelpulegt.... ég náði þó að kaupa afmælisgjafir handa Óttari Páli sætabus, playmoskip, minnisspil og gítar fyrir 2800 krónur er það ekki bara vel sloppið????
Fékk bréf frá foreldrafélagi Öldutúnsskóla þar sem við foreldrar eru hvött til að senda samninganefnd kennara mail þar sem maður á að fara fram á að þeir slái af kröfum sínum til að bjarga blessuðum börnunum okkar frá glötun..... mér varð um og ó.... ég vil heldur senda samninganefnd sveitafélaganna meil og biðja þá að taka sig saman í andlitinu og verða við kröfum kennara. Ég varð æst og reið en svo nenni eg ekki að vera að taka að mér að siða þetta fólk til og læt þeim það eftir að senda Finnboga og Eiríki mail og gera sig þar með að fíflum.... hverju ætti það svo sem að breyta þó einhverjar fúlar mömmur í Hafnarfirði sendi þessum mönnum bréf.... hugsa þeir þá með sér, æ æ það eru nokkrir foreldrar í Hafnarfirði að biðja okkur að slá af kröfum okkar.... ekki hafði okkur dottið það í hug til að leysa deiluna..... við verðum að verða við bón þessara Hafnfirðinga.............. sjör......
Guðsblessun í verkfallinu!
mánudagur, október 18, 2004
Þá er frumburðurinn orðinn 10 ára drengur. Hér var ægilega fín afmælisveisla á laugardaginn þar sem prinsinn á bænum fékk mjög margt góðra gjafa og ég tala nú ekki um hamingjuna yfir gjöf foreldranna sem er hvorki meira né minna en vikuferð til Danaveldis í nóvember. Aðalsteinn var alsæll og hlakkar til að hitta vini sína og skólafélaga í Álaborg.
Hannes er enn á heita Spáni og fílar sig bara vel. Hann hefur víst aldrei verið á eins flottu hóteli og golfvöllurinn uppfyllir allar hans óskir, ekki amalegt það.
Hér gengur lífið sinn vanagang. Fór með tvo elstu í sund í morgun og var það greinilegt að enginn annar fékk þá fáranlegu hugmynd. Við vorum nánast ein í lauginni fyrir utan eina gamla konu á hækjum og feitan kall sem kjaftaði við mig í gufunni. Maður gat því sungið, teygt sig og togað í sturinni eins og ekkert væri, jóðlað á sig sápu staðarins án þess að horft væri á mann með fyrirlitningu og umhverfissjónarmiði.....
Veðrið er vægast sagt kalt en Högninn er samt útí í vagni í eskimóahosunum sínum. Það er vert að taka það fram að hér er ekki um tískufatnað á vegum eskimó módela heldur heimasaumaðir klofsokkar sem minna á Grænland að mati Aðalsteins.
Pabbi þessi elska var hjá mér alla helgina til aðstoðar og skemmtunar. Hann er afar duglegur með strákana og liðlegur í þrifum þegar þannig ber undir. Hann er líka einstakt snyrtimenni og veit ég um fáa karlmenn sem ganga eins vel um og hann.
Í kvöld eru fiskibollur frá séra bónusi í matinn, eitthvað sem á að vera með 99% minni fitu, hvað sem það nú merkir.... minni en hvað 1000% eller.............. en skítt með það kartöflusalat og fiksibollur á diskinn minn í dag........... kóræfing og det hele.... nóg að gera á stóru heimili.... barnapían sem betur fer alltaf tilkippileg...
Í guðs friði
mánudagur, október 11, 2004
Ljóta rigningin svei mér þá. Ég ákvað því að nota daginn í bakstur fyrir afmæli frumburðarins sem er á laugardaginn kemur. Hannes bóndi og fjagra barna faðir verður fjarri góðu gamni að spila golf á heita Spáni og missir því af fjörinu, undirbúningnum, tiltektinni og skreytingum!!!! En ég læt það ekki á mig fá og reyni að undirbúa þetta skipulega, baka í frystinn og láta kallinn þrífa klósett og gólf áður en hann fer af landi brott.
Vorum í fínu afmæli i gær hjá Hauki Inga þar sem allir léku við hvurn sinn fingur nema Óttar sem var ekki að finna sig. Hann er ómögulegur maður ef hann nær ekki að sofna á daginn, blessaður pungurinn hennar mömmu sinnar. Högni er orðinn frískur og er bara sætur eins og alltaf. Stóru drengirnir eru að gera spilagaldra og telja peninga, milli þess sem Aðalsteinn hannar og spáir í köku laugardagsins. Hann hefur ákveðið að gera teikningu með nákvæmum málum séð ofan frá.... upp hafa komið ýmsar hugmyndir svo sem að hafa eldgosaþema.... pokemonþema... og guð má vita hvað.
Síðasta laugardag var ég í Seltjarnarneskirkju að æfa með kvennakórnum og var það voðalega gaman en maður var alveg búinn á því á eftir, þegar ég kom heim voru bara tveir yngstu drengirnir heima. Aðalsteinn var í skátaútilegu og Jóhann upp í Þorláksgeisla. Við áttu þá góða stund hjónin, aldrei þessu vant. Leigðum okkur mynd sem við sofnuðum bæði yfir....
Jóhann missti tönn í gær og kom tannálfurinn færandi hendi með 500 kall í nótt. Í morgun segir svo Jóhann við mig að hann hafi sagt í gær plís gef mér 500 kall, plís...... og mamma svo fékk ég 500 kall. 'Ég hefði átt að biðja um 1000 kall segir hann svo eftir langa umhugsun.....
Svo vorum við að spila áðan Ólsen Ólsen, þá segir Jóhann þegar hann sér bæði hjarta konginn og hjarta drottninguna í bunkanum, hey mamma þessi geta ríðið!!!! 'eg gat ekki annað en hlegið.... hann er svo fyndinn þessi elska.
Nú þarf að sinna sveinum sætu!!!!!!
Í guðs friði....
miðvikudagur, október 06, 2004
Yndislegt haustveður, í það minnsta svona séð frá að innan. Heimilisfaðirinn kom heim í hádegismat klifjaður brauði og salati sem vakti að vonum mikla lukku heimilismanna. Reyndar er ég við það að fara á límingunum yfir sonunum stóru. Þeir eru nánast í rassinum ámér stanslaust allan daginn... og maður fær studnum alveg nóg, ég fæ varla frið til að kúka... samt eru þeir kannski ekki beint óþægir, þurfa bara alltaf að hafa mig með í öllu og segja mér frá öllu. Maður á kannski að vera bara þakklátur fyrir það að þeir vilja enn hafa mig með í öllu, en stundum getur maður ekki meir, ég tala nú ekki um þegar maður er með kofaveikina með einn veikan und alles.... núna eru þeir farnir út eftir síðustu ræðu móður sinnar... en viti menn eru komnir aftur... en eru að sækja bókasafnsskírteinið sitt.... eins gott fyrir þá. Þá má ætla að hér verður friður næsta klukkutímann eða svo enda Högninn sofnaður.
Annars hef ég á tilfinningunni að þetta verfall sé ekki að leysast. Spái því að viðræður gangi vel nú í þessari viku svo komi sveitarfélögin með eitthvað alveg útí hött þegar þeir halda að þeir séu búnir að milda kennarana og allt fer í hund og kat og menn talist ekki við í einar tvær vikur og allt fari á byrjunarreit aftur eins og í Matadori. Get ekki ímyndað mér annað en skólastarf hefjist aftur fyrr en í lok nóvember. Ekki er þetta bjartsýn spá og vonandi rætist hún ekki, en við skulum bíða og sjá hversu sannspá ég er.......
Í tvo daga hef ég verið að eiga við bólufjanda á hægri kinn. Það verður nefnilega að telja mér til hróss að ég hef lítið verið í bólukreistingum síðan ég flutti á frón en í þessu tilfelli var mér allri lokið og ég stóðst ekki freistinguna, klíndi mig eins nálægt speglinum eins og ég gat og ýtti af alefli með vísifingrum beggja handa á hliðar bólufjandans og viti menn, út gusaðist vökvi í fallegum lit en mér fannst það ekki nóg svo ég hélt fyrri iðju áfram, þar til rautt blóðið lak niður vanga minn. Uppskeran er stórt sár á kinninni sem vekur mun meiri athygli en bólufjandinn fyrrveranadi.
Í guðs friði.....
mánudagur, október 04, 2004
Nú héf ég bloggað í rúmt ár hvorki meira né minna og það bara nokkuð reglulega, er það ekki bara vel af sér vikið??? Kannski maður ætti að prenta þetta úr og geyma handa sonunum til að lesa um hversdagsleika móður þeirra þegar þeir eru komnir til vits og ára!!!
Fór í hangikjötveislu hjá föður mínum í gær í sumarhúsinu. Mættu við það systur með fylgifiska og var glatt á hjalla. Inga átti mjög góðan punkt þegar hún spurði afa sinn hvort hann væri með glimmer á enninu!!!!!!!! Annars fannst mér pabbi daufur, kannski er bara svona erfitt að verða 64 ára!!!
Enn er verkafall og synirnir heima í foreldrahúsum. Eru reyndar bara búnir að vera þægir og góðir í dag þessar elskur, fara í pappagáminn og hreina laufinn af hlaðinu. Högnaskottið er hins vegar lasið og síðustu mælingar segja 39 stig og er það hárnákvæm mæling með rassamæli í boði Thorarinson-lyfja. Var settur danskur stíll (í orðsins fyllstu merkingu) upp í sætan rassinn hans og er hann nú að hvíla lúin bein. Óttar er á hælinu sínu og fór ekki vel á með þeim feðgum í morgun. Hannes er oft að rökræða við hann sem er nú kannski ekki mjög gáfulegt, ætti þess í stað að reyna að breyta um umræðuefni og tala um fyrir honum, láta hugann reika. En þegar karlmenn eru uppteknir og stressaðir og nýrakaðir í jakkafötum eiga þeir stundum ekki mikið af þolinmæði... þetta kannski lærist með tíð og tíma... en vonandi áður en Högni fermist....
Í kvöld ætla ég að bjóða Adda vini okkar í mat og er ég að merenera svínakódilettur samkvæmt uppskrift und alles... ætla svei mér þá að hafa kartöflugratín og grænmeti gláð með eins og er bara á alvöru menu-um...
Svo er það kórinn í kvöld að ógleymdum körfuboltanum hjá Jóhanni. Ætli maður verði svo ekki við langþráðri ósk körfuboltamannsins og baki pönnsur í dag...
Í guðs friði
laugardagur, október 02, 2004
Jóhann aurapúki er að telja peningana sína og niðurtaðan er 91 íslensk króna. Hann er ótrúlega mikill peningur og telur peninga sína relgulega eins og Jóakim aðalönd. Hann er samt alls ekki nískur og á það til að bjóða vinum og vandamönnum upp á veitingar ef því er að skipta. Hann er náttúrulega í meyjarmerkinu og vill hfa hlutina á hreinu.
Aðalsteinn og Hannes fór snemma í morgun í gönguferð með skátunum á Álftanes. Voru þeir sendir með nesti og nýja skó að hætti frúarinnar. Hannes hringdi reyndar áðan og sagðist vera eini pabbinn á svæðinu og það sem meira væri það væri engin mamma heldur. Hannes er því í fríðu föruneiti ungra skáta.
Óttar Páll er svooooooooo duglegur, hættur með bleyju bæði nótt sem nýtan dag og er það mikil gæfa verð ég að segja, nóg er að hafa eitt bleyjubarn per heimili ef menn stefna ekki að gjaldþroti.
Kökubasar kvennakórsins var í gær og tókst bara vel held ég. Mest gaman þótti mér að sjá hve mikið líf og fjör er í Friðinum á föstudögum. Mæli með honum fremur en Kringlum og Smárum.
Jóhann var spurður af því á dögunum hvort honum þætti gaman í verkfalli, hann leit á mig og sagði: Mamma hef ég verið í verkfalli????
Annars er ekkert planað öðru meira um helgina annað en að fara í hangikjöt til afans á morgun í tilefni 64 ára afmælis hans.
Gangið á guðs vegum!!!