Háfleygt úr Hafnarfirðinum

Vangaveltur og veruleiki

miðvikudagur, september 29, 2004

Nú eru nær öll blöðin af runnanum í garðinum fokin út í veður og vind í orðsins fyllstu merkingu. Verkfallið heldur áfram og synirnir skilja ekki neitt í neinu. Aðalsteinn er alltaf að reikna út hvenær væri best að verkfallið leystist með tillit til tölvutímans á stundarskránni, heldur greinilega að skipulagið rúlli þótt enginn sé skólinn. Annars er mesta furða hvað þessi grey eru duglegir að leika sér saman. Búið er að taka til í herberginu hátt og lágt og kaupa ógeðslega grænaTurtleskalla sem er aðalhittið núna. Óttar Páll hinn duglegi er hættur á bleyju og gerir nú bæði lítið og stórt eins og hver annar heimilismaður. Þær á leikskólanum eru reyndar ekki alveg að höndla það en ég vona að þær fari nú að gefa sig. Hann kemur heim af róló hér í hverfinu til að pissa og því ætti hann ekki líka að gera það á leikskólanum????????? Högni er kominn með eina ofurkrúttlega tönn og fleiri eru á leiðinni. Hann er að vonum ofurkrútt og slær bræðrum sínum við í þessum efnum sem og öðrum hvað varðar dugnað og þroska. Hann etur grænmeti eins og íþrottaálfurinn og sýpur mjólk af glasi. Er óendanlega sætur og þægur þessi elska, væri til í hundrað svona í viðbót svei mér þá.
Afmælisveilsa Gunnu fór vel fram og skemmti ég alveg frábærlega vel. Var glatt á hjalla og góðar veitingar og fékk hún sannarlega margt góðra gjafa, alls kyns snyrti-, nudd- og heilsuvörur, umhverfisvænar matvörur og guð má vita hvað. Hún sjálf var náttúrulega ægilega fín og sæt og ber aldurinn betur en margur annar.
Óskaplega ætlar hann að rigna í dag, en Helgi Björns söng einhvern tímann mér finnst rigningin góð nanananaaaa og hóooo, verð ég að draga orð þessa annars ágæta söngvara í efa, því íslensk rigning er afar sjaldan svona kvikmyndarigning eins og í Dansing in the rain þar sem fólk skvetti og dansaði í pollum og pyttum með bros á vör og gleði í hjarta. Í hvert sinn sem ég stíg í polla bölva ég rigningunni og hóta sjálfri mér því að láta tískuna lönd og stönd og fara í gúmmistígvélin hvítu, næst þegar ég yfirgefið húsið.
Megi veðurguðirnir vera með ykkur

föstudagur, september 24, 2004

Þoli ekki svona veður sem er ekki greiðsluhelt, maður sléttar á sér hárið og þegar maður er kominn inn í bíl er maður kominn með permanett sem Donna Sommer væri vel sæmd af. Annars hef ég ekki farið út fyrir hússins dyr í dag og mun sennlega ekki gera. Í dag er ég að passa þrjú systkini þar af eina bleika stelpu sem er nú ekki leiðinlegt.... Sölvi, Jökull og Þórhildur mættu hér í bítið og eru voða þæg og góð. Það geta ekki margar 6 barna mæður setið við tölvuna og bloggað í rólegheitum. Högni er sofnaður og Þórhidlur er uppi hjá drengjunum að skoða dótið og skíða um og stríða þeim. Ætla brátt að setja hana úti í vagninn og legg mig jafnvel sjálf þá.......
En nú er friðurinn úti og ég bið guð að vera með ykkur!!!!!!!!!!!

miðvikudagur, september 22, 2004

Ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga... get ég sett börnin mín í gæslu á vegum Íslandspósts í Fylkisheimilinu með górði samvisku. Get ég nýtt mér þessa þjónunstu, þetta er á ansi gráu svæði finnst mér. Þarna er þjálfari og einn aðstoðarmaður per hver 15-20 börn. Nú í boði er videó!!!!! á breiðtjaldi, boltaleikir og jafnvel gönguferðir... matur 3 sinnum á dag. Ekki það að ég geti ekki sinnt mínum sonum sjálf, þeir eru bara leiðir og stundum er samkomulagið ekki upp á marga fiska þegar ekkert um að vera. Þeirra ósk er að láta ekki sjá sig í þessari pössun, hanga fremur heima og létta móður sinni lífið, eða þannig. Þeim finnst það mikil tilbreyting að fara úr pc-tölvunni yfir í Playstation og jafnvel fá að kíkja á netið þess á milli. Nú svo er gott að kíkja á sjónvarpið seinnipartinn.... það gefur auga leið að þetta er hvorki heilsubætandi né fræðandi.. þess vegna verð ég annað hvort að senda þá nauðuga viljuga í pössunina hjá Fylki og líða illa yfir því daglangt þar sem mér finnst ég vera að svíkja stétt mín eða koma upp prógrammi fyrir þá fyrir hvurn dag.... og fylgja því eftir fram í rauðan dauðann. Nú kannski dagurinn gæti litið svona út:
8:00 vakna, borða, bursta
8:25- 10 lestur, skrift
10-12 frjáls tími án tölvu
12-13 hádegismatur hollur og heimatilbúinn
13-14 útivera
14-15 lestur og ritun
15-15:30 miðdegishressing, smurt brauð og mjólk, engin skúffukaka og kakó!!!!
15:30-17 frjáls tími - tölva leyfð í undantekningartilfellum
17-20 almennt fjölskyldulíf með tilheyrandi rifrildum, tuði og tauti
Nú til þess að móðirin geti farið eftir planinu verður hún annað hvort að fá valíum eða byrja hvern dag með einu öllara.
Æ, ég veit svei mér þá ekki hvað ég á til bragðs að taka....

þriðjudagur, september 21, 2004

Þá er Gunna syst orðin 40 ára gömul kona.... við systur mættum fyrir klukkan 7 í morgun ( ég endurtek fyrir klukkan 7) með kerti og rúnstykki og fullt fangið af gjöfum og sungum afmælissönginn fyrir utan gluggann hjá henni. Hún vaknaði upp við vondan draum en var svo hin kátasta enda ekki annað hægt þegar svona skemmtilegar systur eiga í hlut.
Annars er svo sem lítið títt þannig séð af bænum. Bræður farnir að rífast uppúr átta og er ágreiningsefnið hver má halda á og hnoðast með Högnaskottið. Óttar er farinn á sitt hæli og var nú ekkert of sáttur þessi elska, en lét sig hafa það að lokum.
Dagskrá dagsins er óráðin, reyndar fundur í kvöld hjá tenglum í foreldrafélaginu í Öldutúnsskóla, maður mætir þar auðvitað þar sem ég er tengill hjá Jóhanni. Kannski maður baki í dag eða skelli sér í sund með synina. Veit ekki hvort ég kemst í leikfimi þar sem samkomulagið er ekki upp á marga fiska hjá þeim akkúrat þessa stundina, eflaust bara léleg afsökun hjá mér því ég nenni varla..... langar að gera svo margt en geri svo aldrei neitt af viti finnst mér. Unglinguirnn er farinn aftur heim og held ég að hún hafi bara verið lukkuleg með sig hér á bæ.
Leiðist öll umræða í fjölmiðlum um verfallið... annað hvort er ég svona bitur og leiðinleg eða spurningarnar sem lagðar eru fyrir fólk svona ansalegar, en ég hef alltaf á tilfinningunni að kennarar séu óþokkar upp til hópa sem láti sér fátt fyrir brjósti brenna og fara bara í verkfall til að ná sér niður á börnunum í landinu. Enginn fjallar um hvað samninganefnd sveitafélaganna er hræðileg að semja ekki um betri laun kennurum til handa. Kennarar eru alltaf í vonda liðinu. Í gær var ég spurð af sjónvarpskonu Stöðvar 2, hvaða afstöðu ég hefði til kennaraverkfallsins..... ég skildi ekki alveg spuringuna, get ég verið á með eða móti kennaraverkfalli.... er það eitthvað í boði.... ég svarði svo eins og hálfviti, var ekki gefinn tími til að setja á mig lippara og var bara eins og ærgintæta almennt til fara. Þar sem ég bæði stamaði og stundi og vissi ekkert hvað ég átti að segja bjóst ég alls ekki við að þetta yrði sýnt, en viti menn komum við Eríkur ekki bara í fréttunum í gærkvöldi, en sem betur fer sá hvorki ég eða nokkur mikið skyldur mér þetta svo ég get andað róleg. Agalegt að komast loks í langþráð viðtal í tv og geta ekki stunið upp orði af viti né litið þokkalega út, ég sem reyni allt mitt til komast í sjónvarpið og er oftast nær eins og fín frú til fara (nema kannski þegar ég er búin að vera með systursyni mínum í Kringlunni að velja afmælisgjöf handa móður hans tímunum saman!!!!!!!!!!) Já margt er mannanna bölið.

Gangið á guðsvegum á þessum dýrðardegi!

mánudagur, september 20, 2004

Jæja þá er nú verkfallið skollið á og ekkert annað hægt að gera í málinu en að sinna sínum börnum sjálfur og gera gott úr þessu öllu. Gæti opnað mig endalaust um þessa umræðu, kennaradeila/ sveitarfélagadeila eða hvað sem skal kalla þetta.
Hef haft ungling í fóstri um skeið og er það yndislegt. Stúlkan er afar þægileg, dugleg og til fyrirmyndar í alla staði. Í gær skelltum við hjónin okkur á golfvöllinn með Jóhann og áttum við þar góðar stundir. Jóhann átti reyndar býsna erfitt með að þegja þegar foreldrar hans voru að einbeita sér í teignum men den tid den sorg. Synirnir fóru svo með afa sínum á Dýrin í Hálsaskógi í gær við mikla lukku bæði afans og dýranna, jú jú auðvitað drengjanna líka. Á meðan skelltum við hjónin okkur í rómantíska ferð í Húsamsmiðjuna með yngsta prinsinn. Nú ekki nóg með þessa miku Húsasmiðjurómantík þá fórum við líka í Bíó hjónin í gærkveldi á Dís, héldumst í hendur og átum bland í poka og drekkum Freska eins og okkur væri borgað fyrir það. Myndin var bara skemmtileg þannig séð, ekkert stórverk en heldur ekki léleg mynd, bara ósköp notarleg og fyndin á köflum.
Nú er stefnan tekin á Reykjavík city með drengina að heimsækja þá Hauk og Guðmund Hólm sem þykir ægilegt sport hér á bæ. Er stemmningin svo gífurleg að ég verð að segja skriftum mínum lokið med det samme og drífa mig af bæ.
Megi guð vera með öllum í þessu verfalli...

miðvikudagur, september 15, 2004

skolli er langt síðan maður hefur bloggað. Hef nefnilega verið að bíða eftir því að minnsti stjórnmálaflokkurinn í landinu fengi æðsta embættið sem er svo þegar til kastana kemur ekkert draumadjobb í huga Halldórs....
Nú Einar Þorstensson forstjóri Íslandspósts hætti sem forstjóri, þar sem það stefndi í methagnað á árinu og honum fannst því tímabært að yfirgefa skipið.... ja það sem sumir eru góðhjartaðir, einn endar í valdamikludjobbi sem hann er ekkert hrifinn af og hinn fer frá fyrirtækinu þegar best gengur til að leyfa örðum að njóta sín.
Hér á bæ er allt við það sama. Frúin á bænum eyðir (ja eða nýtir, eftir því hvernig á það er litið) um 2 tíma á dag við heimalærdóm með drengjunum og ég spyr mig oft á dag að því hvernig fara forelrar að þar sem báðir vinna úti... Erum við ekki eitthvað að miskilja þetta. Mig minnir að heimalærdómur hafi komist á þegar farkennarar voru á ferð um sveitir landsins og komu ekki á hvern bæ nema mesta lagi einu sinni í mánuð og því áttu börnin að læra eitthvað sjálf í millitíðinni. Svo hefur þetta einhvern veginn fests við í skólakerfinu. Við erum alltaf að lengja skóladaginn og skólaárið hjá blessuðum börnunum og svo bætum við líka við heimalærdómi, þannig að þessi stutta stund sem foreldar eiga með börnum sínum frá því að vinnutíma lýkur og þar til kemur að sveftíma barnanna er gjörsamlega eyðilagður með áminningum, nöldri og tuði um hvort barnið sé búið að læra heima, í staðinn fyrir að stuðla að fjölskylduvænum samverustundum s.s að fara í Smáralindina og Kringluna þar sem hægt er að skilja börnin eftir í glensi og gríni fyrir hálf mánaðarlaun.... nei grínlaust þetta er ekki alveg að gera sig.
Annars er Högninn farinn út í vagn að hvíla lúin bein, því það tekur á að sitja og leika sér tímunum saman ég tala nú ekki um þegar menn eru sífellt að slá sér á lær eins og hann gerir í tíma og ótíma. Svo er bolginn efri gómur og eitthvað að gerast líka í neðri, hann verður sennilega altenntur áður en langt um líður.
Kennurunum finnst Jóhann ansi stutt á veg kominn og ætla að láta athuga hann eitthvað betur. Það er bara gott mál , enda við boðin og búin til að gera allt til að hjálpa honum. Fyndnast af öllu er að hann gerir sér engan veginn grein fyrir að hann sé eitthvað öðruvísi en hinir, finnst við eitthvað smásmugulega að gera athugasemdir við að hann segi l í staðinn fyrir r... ég meina allir hafa sína sérstöðu og því má hann ekki vera eins og hann er.... en auðvitað er rétt að rannsaka guttann og komast að því hvort eitthvað meira en smámælgi og lítil stafakunnátta sé að.
Tifið í stofuklukkunni er að verða óbærilegt, best að keikja á útarpinu í þeirri von að tískulöggan hjá Gesti vini mínum Einari sé búin að koma í þáttinn, sú lögga er óendanlega leiðinleg og getur alveg eyðilagt hjá manni daginn ef því er að skipta.
Gangið á guðs vegum!!!!!!!!!!

fimmtudagur, september 09, 2004

Fyrsta kóræfing var í gær og ég var bara lukkuleg með þetta. Kórstjórandinn hældi nýja fólkinu og sagði að hún hefði verið ströng og vandlát að þessu sinni... um líkama minn fór sælutilfinning og mér fannst ég jafnvel vera söngvari á heimsmælikvarða svei mér þá...
Annars er bara venjulegt amstur þessa dagana, elda, baka, þrífa og allur sá pakki. Högninn er náttúrulega bara æði, fæ alveg í alla endajaxlana (líka þá sem komu aldrei upp) þegar ég lít hann augum, svo dekraður og brosmildur.
Aðalsteinn stefnir á að vera algjör ging gang gúllí gúllí gaur og telur niður dagana þangað til hann fer næst í skátana ég er alsæl með þetta enda skáti sjálf, þótt ég hafi nú ekki verið lengi starfandi þá var maður vígður upp í Fálkafelli og maður kunni nokkra hnúta, og svo má ekki gleyma að ég var varðeldastjóri sem skýrir auðvitað sönghæfileikana.... Jóhann minn getur ekki ákveðið hvað hann vill æfa en hann á sem sé að velja eitthvað. Dettur honum helst í hug eitthvað sem ekki er hægt í Hafnarfirði s.s keilu, tennis, íshokký og ólympískir hnefaleikar... við erum svona að reyna að benda honum á fótbolta eða handbolta en það virðist ekki vera það sem hann hafði í hyggju, spennandi að fylgjast með hvað verður úr hjá honum.
Jæja Högninn er ósáttur við að móðir hans nenni ekkert að sinna sér... best að knúsa hann og kjassa, skella sér í rúmfó eller IKEA og kaupa eitthvað undir dótið hans.
Í guðs friði

miðvikudagur, september 08, 2004

Ljótt með hitamælinn.... hann var stilltur á mælingar á hitastigi innan dyra svo það er ekki að undra að frúin væri hissa yfir veðurblíðunni...
Það var ósköp gaman fyrir norðan þó tilefnið hafi verið jarðarför. Það er svo gaman að hitta alla ættingjana og rifja upp góða tíma í Holti og hlusta á pabba segja sögur frá því hann var að alast upp. Reyndar var þetta fullmikil keyrsla á laugardaginn og ég var alveg búin á sál og líkama, með bílriðu und alles.
Keppti í golfmóti á sunnudagsmorguninn í gummístígvélum, en það er kannski ekki æskilegur fótabúnaður í golfi, hvorki faglega né fagurfræðilega séð.. en það kom svo sem ekki að sök. Mér gekk þokkalega á sumum brautum og verr á öðrum eins og gengur. Nú vill hins vegar bóndinn endilega koma með mér á völlinn, en ég er ekki alveg eins hrifin af þeirri hugmynd.
Fór í kvöld í inntökupróf í Kvennakór Hafnarfjarðar og var boðin innganga á staðnum. Æfingar hefjast strax annað kvöld og er ég afar spennt.
Drengirnir eru lukkulegir með sig, Aðalsteinn búinn að læra fyrir alla vikuna en eitthvað finnast mér aðferðir Jóhanns við lesturinn undarlegar... mikið um ágiskanir og stæla... veit ekki alveg hvernig ég á að taka á þessu. Svo talar hann svo óskýrt að ég efast um að nokkur maður skilji hann sem ekki hefur í það minnsta BA í hebresku.
Men den tid den sorg...
Í guðs friði...

fimmtudagur, september 02, 2004

Eitthvað er nú mælirinn góði frá Landsbankanum að klikka, nú sýnir hann 25.1 gráðu og sól...
Hef áhyggjur af sjálfri mér........ er ég tölvufíkill??????????

Þetta er nú meiri blíðan. Á mælinum, sem Hannes kríaði út úr þjónustufulltrúanum sinum með harðri hendi í Landsbankanum, segir að hitinn sé 19.7 gráður hvorki meira né minna.
Seinnipartinn mun ég halda af stað norður á boginn með pabba og Gunnu og auðvitað Högnaskottinu. Er áætlað að aka til Akureyrar í kvöld og svo áfram á föstudaginn og svo á að bruna beint eftir erfidrykkju til Hafnarfjarðar, takk fyrir 700 km á einum degi..... Sunnudagurinn fer svo í golfmót hjá frúnni, hlakka til að sjá hvernig það gengur....
Er búin að láta smyrja bílinn, kaupa bensín í Atlandsolíu því maður á hvergi annars staðar að kaupa bensín..... búin að pakka buxum, sokkum, brók og skóm... bjútíboxið orðin fullt af alls kyns varningi sem nauðsynlegur er á ferðalögum um landið, spurning um að búa til nesti líka... en það er kannski einum of.... annars hefur pabbi aldrei klikkað á slíku á ferðalögum sínum. Kannski ég láti honum það eftir.
Synirnir eru sælir í skólanum enn sem komið er. Spurt er eftir Jóhanni eftir skóla und alles... Aðalsteinn kominn með eitthvert Warhammer-æði sem felst í því að líma saman agnarsmá módel og mála þau. Svo er spilað og leikið í einhverjum stríðsleikjum þegar fram í sækir. Veit svo sem ekki hvort þetta er uppbyggilegt en í það minnsta styrkir það fínhreyfingarnar að mála og líma.
Óttar er duglegur og sætur leikskólastrákur sem tók sparibaukinn með sér á leikskólanní dag... maður verður nú að sýna hve ríkur maður er... Högninn sefur sætt úti í vagni við sætan ilminn af ruslatunninni... spurning um að færa annað hvort...
Handriðið komið upp, nú á bara eftir að mála það og setja eikarhandlista þá er þetta súper, það verður að bíða enn um sinn enda mun heimurinn ekki farast þá eitthvert smáræði vanti.
En gangið á guðs vegum meðan við verðum norðan heiða og jafnvel lengur ef því er að skipta...