Háfleygt úr Hafnarfirðinum

Vangaveltur og veruleiki

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Þá er ágústmánuður senn á enda runninn og við að brenna inni með Lató peningana ógurlegu.... kannski við skellum okkur í sund á eftir. Annars er veðrið rather leiðó, Högninn verður bara hræddur við svona ofsaveður...
Er annars orðinn húkt á afþreyingu á Mogganum og er oftast búin að slá ýmis met þegar synirnir koma blautir og illa til reika heim úr skólanum og eiga þeir fullt í fangi við að slá met móðurinnar. Mestan áhuga hafa þeir á leikjum með flottri grafík en nenna alls ekki í kapal.... ég á því mestan tíma þar inni.....
Maturinn í skólanum er bara að virka, Aðalsteinn er alsæll með þetta fyrirkomulag og segist nú borða kjötsúpu hvað þá meira. Reyndar leist honum ekki á laxinn í dag, en Jóhanni fannst hann mjög góður enda hefur hann alltaf verið þekktur fyrir undarlega smekk.... endur, lax og gæsir á hans disk. Greinilega verðandi villibráðarskytta....
Óttar er allur annar, og virðist vera að átta sig. Er hættur að vola þegar pabbi hans fer með hann á leikskólann og er bara glaður þegar mamman sækir hann. Mikill léttir finnst mér. Maður er ekki alveg í rónni í tövluelikjunum ef maður veit af barninu sínu óánægðu.!!!!!!!
Annars er lifið bara fínt þessa dagana og ekki hægt að kvarta undan neinu nema að vera skyldi ótta Íslendinga á að birta verð í auglýsingum. Peningar eru svo mikið leyndó, enginn vill segja hvað hann er með í laun, ekkert verð er í auglýsingum samt geta fyrirtæki sparað sér um 3000 símtöl með því að birta verðið.... skýtin árátta hér á landi. Í hinu dásamlega Danaveldi er ekki birt auglýsing nema með verði þar sem allt er sundurliðað. Eitthvað sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar.
Jæja nóg um það.... guð veri með ykkur...

mánudagur, ágúst 30, 2004

Þá er tvisturinn orðinn 7 ára. Var mikið um dýrðir á föstudaginn þegar sveinninn sjö ára bauð til veilsu. Komu hér margir krakkar og voru etnar pizzur, kaka og snakk eins og hver gat í sig látið. Ratleikur að hætti Dana og sjeik í lokin. Fékk hann margt góðra gjafa og var yfir sig hamingjusamur.
Óttar minn Páll er ekki eins hamingjusamur enda átti hann ekki afmæli, fékk enga pakka og enginn vildi hafa hann sérstaklega með í neinu. Hann vill ekki fara á leikskólann, er oft öfugsnúinn og geðillur, vill ekki pissa í klósettið, vill enn síður kúka í klósettið, vill ekki borða á matartímum og ekki ganga heim eftir leikskóla. Hann á eitthvað svo erfitt blessaður drengurinn hennar mömmu sinnar þessa dagana. Ég veit svei mér ekki hvað ég á til bragðs að taka. Það er greinilega erfitt að vera mitt á milli í bræðraröðinni, mega ekki gera eins og stóru bræðurnir og heldur ekki pissa á sig eins og litli bróðir..... hvað má maður þá???????
Hann á samt sínar góðu hliðar!!!! í það minnsta stundum!!!!
Annars er ró yfir heimilinu núna, enda ásinn og tvisturinn í skólanum og þristurinn í leikskólanum. Fjarkinn sefur í vagninum sinum enda þreyttur eftir leikfimina í morgun. Mín biða þvottastaflar og rúmaumbúiningur, tiltekt og trakteringar. Er enn ekki búin að ákveða mig hvort ég fer norður í Þistilfjörð á jarðarför Öbbu í Holti - sé til þegar líða tekur á vikuna hvernig þetta fer allt saman.
Í guðs friði!!

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Mikið lifandi skelfingar ósköp er gott að vera svona einn á morgnana og gera ekki neitt. Ég tala nú ekki um þegar Högninn sefur marga klukkutíma í vagninum úti á palli. Maður er sko búinn að fara í IKEA, kíkja á Friðrik Bínuson, lesa fréttablaðið fram og aftur, setja í minnst 2 vélar (3 ef uppþvottavélin er talin með!!!!) kjafta við Höbbu vinknou í minnst klukkutíma í símann, setja heimagerðu sólberjasultuna mína í krukkur og ég veit ekki hvað og hvað. Er bara lukkuleg með mig.
Hef ekkert komis í golf í viknuui og ekkert farið í leikfimi.... skamm skammm skammmmm men den tid den sorg eins og danskurinn segir.
Abba ömmusystir mín kvaddi þennan heim í dag eftir langa ævi. Hún var orðin södd lífdaga og kvaddi sátt við guð og menn. Hún var stórkostleg manneskja, svo krúttleg og góð. Mér þótti gaman og gott að komast í sveit til hennar þegar ég var unglingsstelpa og kenndi hún manni til margra verka, sum ansi gamaldags en maður hafði sko gott af því. Mér þykir vænt um minningar mínar út Holti og á hún þar stærsta hlutann. Blessuð sé minning Öbbu í Holti.
Í guðs friði

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Jæja þá er maður orðinn 36 ára og ekker minna. Átti yndislegan dag með ættingjum og vinum á sunnudaginn. Var mikið um kaffi og kruðerí enda hef ég ekki verið með stórfjölskyldu minni á afmælisdaginn minn í fjögur ár svo vel varð maður að gera við gesti sína. Ég fékk margar góðar gjafir, ja um tíma hélt ég að ég væri svei mér þá barasta fimmtug.....
Besta gjöfin var gjöfin frá Jóhanni mínum sem tók 500 kall úr sinu eigin veski og pakkaði honum inn og lét pabba sinn skrifa á kort þar sem á stóð: Til hamingju mamma, þú ert 36 ára, Jói Hannesson, gaman gaman og bless bless. Mesta krútt ever...
Skólinn er hafinn hjá þeim bræðrum og líst þeim bara vel á sig. Aðalsteinn kominn í 5. bekk L og Jóhann í 2. bekk K. Fengu þeir grjónagraut í matinn í skólanum í dag sem Jóhanni leist ekki svo vel á, en Aðalsteini fannst hann betri en mömmu grautur og það hljóta að vera meðmæli eða hvað. Nú maður hefur auðvitað keypt ritföng sem samsvarar einni bókabúð eða svo, þvílíkir eru innkaupalistarnir hjá þeim bræðrum. Í Danaveldi fá börnin allt í skólanum svo við erum ekki alveg að ná þessu. En við vorum sammála um að kaupa bara það ódýrasta og ekkert myndakjaftæði því þeir gætu alveg eins teiknað eitthvað sjálfir á sínar bækur. Er ég afar sátt við að þeir skuli ekki enn vera farnir að hlaupa á eftir tískunni og vona bara að þeir haldi sem lengst í sinn eigin stíl. Get ekki séð að Spiederman- og Loony Tuns bækur geri neinum eitthvað betra en öðrum, enda engan veginn hægt að lækna lesblindu og námsleiða með rándýrum og skrautlegum forsíðum.
Óttar er eitthvað að fá bakslag í leikskólanum og grætur á morgnana þegar hann er skilinn eftir, Högninn hins vegar brosir hringinn, etur graut og sýpur á glasi eins og fínn maður, situr svo bara sjálfur og horfir á Ólympíuleikana með bræðrum sínum.
Hef skráð mig á mitt fyrsta golfmót og hana nú.....
Í guðs friði!

laugardagur, ágúst 21, 2004

Hef lokið framhaldsnámskeiði í golfi - stóð mig bara vel
Hef eignast golfsett - er aðalpæjan í sportinu
Hef farið í klippingu - er bara flott
Hef farið í litun - er brennd á augnloki....
Hef bakað misheppnðar kökur í allan dag - allir velkomnir sem eiga leið um á morgun!
Hef eitt og hef annað, þó ekki neitt sem er bannað...

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Egg í brauði, steikt skinka og bakaðar baunir í hádegismatinn hér í Hafnarfirði.......... býður einhver betur..............

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Bræður alsælir á handboltanámskeiðinu og Jóhann skoraði næstum því mark, sem sé stöngin út eins og sagt er.
Fór að skoða Hrauntunguna hennar Steinunnar sem er bara svona flott. Það er raðhús með aukaíbúð í kjallara sem er 90 fermetrar, með sérinngangi og bílastæði og garði. Nú vantar góðan leigjanda svo ef þið vitið um einhvern traustan og góðan sem vill búa í Kópavoginum þá látið okkur vita (SIO- 861-8443).
Skrapp svo í kaffi til Fjólu mágkonu minnar sem er í óðaönn að mála húsið sitt að utan og er það voðalega fínt hjá þeim hjónum.
Högninn er með hor, en það er sannarlega bót í máli að þetta er voðalega sætt hor.
Hannes gekk í það mál að lengja vinstunartíma Óttars á leikskólanum og verður hann héðan í frá til kl. 16 sem er frábært fyrir hann, þá væri hann að sofa lengur og vera með jafnöldrum sínum. Ég tala nú ekki um hve mikill munur það er fyrir móðurina örþreyttu eða þannig.
Jæja, ætli sé kominn tími á að framreiða hádegisverð fyrir þreyttar handboltahetjur sem stunda grænmetisrækt í frístundum..............
Guð geymi ykkur
ps. var ekki alveg að standa mig á golfnámskeiðinu í gær......

mánudagur, ágúst 16, 2004

Jæja, nú er það amman á Akureyri sem á afmæli í dag og svei mér þá, ef hún heldur bara ekki upp á það með því að flytja úr blokkinni yfir raðhúsið í dag.!!!!!!!!!!!!
Annars allt í góðu hér á bæ. Fór í golf um helgina og fengum við okkur kaffi í skálanum á eftir stöllurnar, sem reyndar tók lengri tíma en spila 9 holur á par3 velli..... orðin góð í golf-málinu!!!! Er að fara á framhaldsgolfnámskeið í kvöld, engin miskunn hjá Magnúsi með það.
Ásinn og tvisturinn fóru á handboltanámskeið hjá fh í morgun og voru nú ekki alveg sáttir. Fannst vera frekjuhundar inn á milli sem öllu vildu stjórna og skipuðu fyrir og létu þá sem ekki gripu heyra það. Kennarinn var víst eitthvað upptekinn enda ekki nema 60 börn á námskeiðinu og hann einn, makalaust hvað sumir eru fjölhæfir!!!!!............. Aðalsteinn vill meina að handbolti sé á hærra plani í Danaveldi og kennarinn þar hafi nú verið mun betri. Vildu menn víst litið gefa á þá bræður í dag, samt voru þeir ekki með hendur í vösum að eigin sögn!!!!!!!!!!!!!!! En þeiR mæta galvaskir á morgun og e.t.v. kíki ég á æfinguna og legg mat á pædagogigina hjá þeim effhaíngum.
Óttar er sætur með sár á kinn, Högninn sofnaður í vagni með hor á kinn, eldra hollið að taka upp grænmeti og sjálfsagt með mold á kinn..............
Með þessu áframhaldi fá þeir allir koss á kinn............
Í guðs friði

föstudagur, ágúst 13, 2004

Jæja þá eiga þær Þórdís og Kringlan afmæli, til lukku með það kæru vinkonur.
Eitthvað er nú veðurblíðan að minnka og er það svo sem bara gott mál. Maður má ekki heimta meira og vera frekur heldur þakka fyrir það sem maður fær, blíða í eina viku er meira en maður getur krafist af íslenskum veðurguðum, ekki satt.
Annars er síðasti dagurinn á golfnámskeiðinu og eigum við að keppa á æfingavellinum í Setberginu. Ekki laust við að frúin hlakki til..... Bóndinn er að keppa á alvöru móti og von á barnapíunni eina ferðina enn. Hún kom í morgun og þreif þessi elska og svo ætla þær mæður að vera hjá okkur í pizzuveislu í kvöld.
Tók einn hring í Firðinum (kringlunni í minni heimabyggð) áðan og sá svo sem ekkert merkilegt nema að vera skyldi harðfisk og Jónu móðursystur með dóttu og dótturdóttur.
Annars er ég farin að hlakka til þegar skólinn byrjar og regla kemst á heimilið. Jóhann hlakkar til að byjra og telur samhliða niður dagana þangað til hann á afmæli. Aðalsteinn er hins vegar kvíðinn fyrir skólabyrjuninni, þessi elska en ég vona bara að hann lendi í góðum bekk og hann finni sér einhvern vin með nördatakta eins og hann!!!!!!!!!
Mér finnst það reyndar merkilegt hve mörg börn vita um verkfallsboðun kennara ef ekki semst fyrir 15. september og verð ég að segja að það fer nett í taugarnar á mér. Krökkunum er nefnilega bara sagt að helv.... kennararnir ætli í verkfall eina ferðina enn, en ekki hvers vegna þeir neyðast til þessarra aðgerða ...þ.e. ef ekki semst. Mínir synir vita ekkert um kjaramál kennara og þaðan af síður að þeim sé ljóst að 90% kennara geiddu atkvæði með verkfallsboðun síðastliðið vor vegna óánægju með kjör sín. Þeir gera sér heldur ekki grein fyrir vinnuskyldu kennara né hve há laun þerirra eru og hve illa var vegið að kennurum í siðustu kjarasamningum.... sumur vilja sjálfsagt meina að synir mínir væru ekki nægilega upplýstir og má það vel vera. Það er alla veganna á hreinu að ef til verkfalls kemur fá þeir að heyra sannleikann í málinu ekki bara einhverjar dylgjur um kennara sem eru sífellt kvartandi og hana nú...........
Kveðja frá Þuru kjarakellingu með meiru

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Ja ekki er að spyrja að veðurblíðunni....
Högninn var kominn með bullandi eyrabólgu í hægra eyra með tilheyrandi greftri og leiðindum og þótti lækninum (sem by the way var afar myndarlegur) það með ólíkindum hve glaður og kátur hann var þrátt fyrir allt, já hann ber harm sinn í hljóði hann Högni minn. Nú þar sem við vorum byrjuð að rassamæla gengið var ráðist á Óttar Pál í morgun og er hann þá ekki kominn með einhverjar kommur, sem er nú nóg til að senda hann ekki á leikskólann, hann var eitthvað druslulegur í gær og er svona hitalegur til augnanna í dag blessaður drengurinn. Ekki er nú mikið fyrir honum haft enda lofa ég og þakka guði fyrir videóið á stundum sem þessum.
Uppskera Aðalsteins úr skólagörðunum er gríðarlega mikil og falleg. Hann hefur selt þónokkuð af grasi og garðakáli og í dag kom hann heim með rauðkál, rauðrófu, brokkólí og grænkál svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa uppskeru af kauða eru bara beðnir að hafa samband við heimili hans þar sem tekið verður á móti pöntunum út næstu viku en þá eru uppskerulok. Heppinn kaupandi fær sparikaffi og meðððððíiii hjá móðurinni!!!!!!!!!! Ekki amalegt tilboð það!!!!!!!!!
Golfið gengur vel og tók ég svoleiðis sveiflurnar í gær að ég brosti út að eyrum þar til ég sofnaði. Var alveg í sjétteringum... í ljósum kvartsbuxum, rauðum bol, rauðum sokkum og að sjálfsögðu með rauða póstderhúfu frá bóndanum.... enda þótti ég taka mig vel út.
Ætli sé ekki best að taka úr og setja í ýmsu vélar heimilisins...
Guðsblessun....

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Áfram Smáralind... bara búin að loka öllum þar nú kl. 15:00.... svona eiga menn að vera

Já. þetta er veðrið sem við í dönsku familíunni pöntuðum.....
Það er reyndar svo heitt að það er varla verandi úti.... í það minnsta finnst elstu bræðrunum það. Í þessum skrifuðum orðum standa yfir mikil viðskipti á pokemon kortum innan dyra við þá Villusyni og virðast viðskiptin ganga átakalaust með öllu. 'Eg er að láta renna í laugina fyrir þá, með brauð í vélinni og vatnsmelónur sem ég keypti á 99 kr deginum í Hagkaup í lange baner. Það væsir því ekki um unga drengi hér í dag. Reyndar er Högninn sá allra sætasti eitthvað slappur með hor, hósta og ægilega krúttlegt hæsi. Eigum tíma hjá lækni í dag kl. 14 svo Elín Inga barnapía með meiru kemur og reddar mér með Óttar eins og svo oft áður þessi elska.
Það er nú reyndar helst til tíðinda hér á bæ að ég er byrjuð á golfleikjanámskeiði þar sem kennarinn er í bleiku vesti, með bleika derhúfu og með hanska í stíl. Er þetta hið skemmtilegasta stund og ekki spurning, að ég stefni á outfittið, ekki seinna en næsta sumar. Þarna eru samankomnar konur héðan og þaðan, allur aldur og bara mikil stemmning. 'Eg fékk meira að segja hrós í gær fyrir frammistöðu þá svo að höggin mín séu fremur stutt og skökk eins sem komið er... en æfingin skapar meistarann og því verður maður að trúa, þó svo að ég hafi gefist upp á þverflautuleik og píanóglamri hér á árum áður þegar ég hafði ekki um neinn að hugsa nema sjálfa mig...... en nú er högninn að kvarta svo ég verð að hætta í bili...
en í guðs friði í góða veðrinu....

föstudagur, ágúst 06, 2004

Þá er maður kominn heim eftir frábæra daga á Akureyri-cittý. Alltaf gaman að fara norður. Við fengum dásamlegt veður og vorum í góðu yfirlæti hjá Möggu og Óla. Á heimleiðinni fórum við til Dalvíkur og skoðuðum byggðasafnið, keyrðum ínn í dal og litum á fæðingarstað frúarinnar við mikla lukku sonanna sem dauðöfunduðu móður sína að hafa fæðst á stað þar sem svona flott leiktæki voru!!!! Nú til að gleðja familíuna fór ég í gamla Kaupfélagið og splæsti krembrauði á línuna sem var mjög vel tekið, í það minnsta í fyrstu....
Nú svo lá leiðin til Ólafsfjarðar og síðan stefnan tekin á Lágheiðina. Nú, þar gerðist það í fyrsta sinn í okkar fjölskyldusögu að einn varð bílveikur. Jóhann minn ældi og spjó krembrauðinu góða milli þess sem hann bað um að skipt væri um föt á honum og lýsti hann fjálglega gusunumi milli ælugusanna. Nú hann var færður úr hverri spjör þrátt fyir óvenju mikla umferð. Áleit ég að ekki gætu mikið fleiri verið á ferðinni þarna á Lágheiðinni um miðjan miðvikudag svo ég skellti mér út í mó og pissaði innan um berjalyng og mosa. Það skiptir þá engum togum en þegar frúin er í miðjum klíðum koma nokkrir bílar niður brekkuna og berja þá hvítar rasskinnar mínar augu allra bílstjóra og farþega. Aðalsteinn tók kast og sagði mamma þetta er svo pínlegt við getum sko ekki farið í sund á Sauðárkróki út af þessu það þekkja okkur allir aftur..... En móðirin lét það ekki á sig fá, fór með hele familien í sund á Króknum, fór á kaffi krók í mat og lét eins og ekkert væri. Já það er fátt betar en að pissa úti í guðrgrænni náttúrunni.....
Í guðs friði