Háfleygt úr Hafnarfirðinum

Vangaveltur og veruleiki

föstudagur, júlí 30, 2004

Augnablik, augnablik...
Hvem pantaði þetta veður ég bara spyr.......
Hér rignir bara hreinlega eldi og brennisteini... ég á bara ekki til orð
Er staðráðin í að fara norður á Akureyri og það ekki seinna en á morgun klukkan 9 árdegis.  Magga og Óli eru svo væn að vilja hýsa okkur stórfamilíuna, en ætli það verði ekki bara í þetta eina sinn þar sem þau fá sjálfsagt nóg af okkur eftir nokkra daga.  Stefnan er tekin á sundlaugar á Norðurlandi, Byggðasafnið á Dalvík, Jólahúsið og að ógleymdum blómaskálnum Vín.  Nú helstu ættmenni verða heimsótt en þar ber helst að nefna ömmuna í Víðilundi.  Svo á Hannes eitthvað að vinna á Akureyri á miðvikudaginn svo við komum sennilega ekkert heim fyrr en eftir það...
....mér blöskrar svo veðrið að ég á ekki til orð, þetta er harðari buna en var í sturtunni minni í morgun svei mér þá.
Sá Hemma Gunn í morgunsjónvarpinu og skil vel að hann sé nú aðeins hafður í útvarpi, reyndar voru samþáttastrjórnendur hans þau Arnþrúður Karlsdóttir og einhver Ívar píreygður mjög, ekki skömminni skárri.  Gott ef brennivínsdraugurinn hefur ekki tekið sinn toll af þessu annars ágæta útvarpsfólki.....
Tiltekt hjá bræðrum við tilheyrandi rifrildi og ávítum um umgengi, stefnt jafnvel á Smáralindina ef veður fer ekki að batna.
Gangið hægt um gleðinnar dyr þessa helgina og sýnið aðgát í umferðinni

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Góður dagur í dag. 
Hóf daginn á að sjá synina á enn einu sundnámskeiðinu og gekk það bara vel..  Að þessu sinni var afinn með í för með myndavélina að vanda.  Svo skelltu bræður sér í grill með skólagörðunum og við pabbi fórum á stúfana m.a. til Steinunnar systur sem var kát að vanda, sólbrún og sæt eftir ferðalagið á Vestfjörðum.  Kíkti á lítinn vikugamlan Bínuson sem er rauðhærður með barta og barasta þvílíka krúttið að ég fékk alveg í eggjastokkana, gæti sko vel hugsað mér einn enn svei mér þá. 
Í kvöld ætla ég að fá Gunnu og familie í mat, gillaðar kjúllabringur að hætti hússins, hvítlaukskartöflur og frönsk súkkulaðiterta í desert.  Terta þessi er úr uppskriftarbók Vigdísar Finnbogadóttur hvorki meira né minna og læt ég barasta uppskriftina flakka til gamans.
Frú Vigdís
4 egg
3 dl sykur............ þeytt vel saman
200 g smjörvi
200 g suðusúkkulaði .............. brætt í vatnasbaði.... saman
1 dl hveiti
einn poki Hagvers möndlur hakkaðar.............. bætt rólega úti, engan æsing!!!!
bakað í lausbotna móti í ca 40 mín þagað til mannsi finnst tertan vera tilbúin, hún má vera og á aðvera svolítið blaut....
flórsykur sigtaður yfir þegar tertan er köld oog einhverjum berjadruslum sem er á tilboði þá vikuna raðað fallega í hring.
Tertan er svo borin fram með t.d. ís eller þeyttum rjóma.
 
Dæmalaust einfalt, fallegt og gott.
Best að huga að ofninum og fara að undirbúa kartöflurnar....
Í guðs friði....

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Í dag eru 8 ár síðan við hjónin játuðumst hvort öðru fyrir guði og mönnum.  Þetta var afar skemmtulegur dagur og hefur margt gerst á 8 árum.  Við búið í útlöndum, eignast þrjá syni til viðbótar, flutt í Hafnarfjörðinn, ég bæði brákað fingur og fót í það minnsta 5 sinnum og Hannes fengið 2 þursabit.
Af þessu merka tilefni hef ég boðið bónda mínum út að borða í kvöld þar við munum horfast í augu yfir kertaljós, haldast í hendur og skjóta ástarörvum í lange baner.  Langt síðan við höfum farið ein út að borða og hlakka ég bara voða mikið til.

Hér eru staddir bræðurnir Haukur Ingi og Guðmundur Hólm og veit maður varla af þessu strákastóði, þeim kemur svo vel saman.  Högni er sofandi úti í vagni og Óttar á sínum leikskóla.  Eg búin að skella í eina brúna handa drengjunum og ætli ég fari ekki í samlokugerð í hádeginu.  Nýi bakaraofnin virist bara virka vel, í það minnsta betur en sá gamli.  Aðalsteinn kom heim með grænkál og risarauðrófu úr skólagörðunum í morgun, best að gera eitthvað úr því handa frúnni á bænum sem alltaf er að reyna að huga að heilsunni.........
Guð veri með ykkur........

mánudagur, júlí 26, 2004

Nú er mér allri lokið.... engin comment, ekki einu sinni á þessu einu uppskrift sem ég látið flakka.... ja öðruvísi mér áður brá......
er aftur komin með níu fingur og er ótrúlega fim á lyklaborðinu þrátt fyrir fingurleysið verð ég að segja. 
Högni fékk göngugrind í dag og nú veit ég að sjúkraþjálfarar og sérfræðingar  rjúka upp til handa og fóta og mótmæla þessu annars ágæta hjálpartæki.  En hann er nú yngstur sinna bræðra og vill vera maður með mönnum svo við létum það bara eftir okkur á leyfa honum að fá þetta hjálpartæki.  Hef ekki hugsað mér að hann sitji í þessu tímunum saman, daginn út og inn heldur verði settur þarna til tilbreytingar.......
Í kaffinu bauð Aðalsteinn upp á heimagert kremkex.  Það mun, sem sé, vera Maríukex ættað frá Danmörku sem er sætt kex með engu kremi eins og íslenska Maríukexið.  Nú svo bjó hann til gult og grænt krem og skellti því á milli og var þetta etið upp til agna við mikla lukku bræðranna.  Einföld og skemmtileg lausn fyrir krakka.  Sé fyrir mér að það megi lika nota bara ritz eða tekex.  Man að mamma setti 4 bananasneiðar á tekex og stráði súkkulaðispænum fra Lindu yfir þegar ég var með mína fyrstu saumaklúbba.....  já margt er hægt að gera með þessum krakkakúlum síunum ef þvi er að skipta....
læt hér staðar numið og ætla að bjarga Högna úr göngugrindinni!!!!!!!


sunnudagur, júlí 25, 2004

jæja
tók af mér umbúðirnar í dag og er nú að prófa að nota fingurinn.  Gengur það bara býsna vel brátt fyir að vera blá og marin.  Tók mér góða sturtu en stefni á að fara til Guffu vinkonu minnar og hjúkku með meiru og fá nýjar umbúðir.... henni leist ekki nógu vel á fingurinn svo ég ætla að fara að hennar ráðum og setja nýjar umbúðir. 
Annars hefur helgin verið góð og við unað hag okkar vel.  Fórum í oddsholtið, kaffihlaðborð á stokkseyri og sund í grafarvogslaug sem er nú með betri laugum verð ég að segja.  Mamma saumaði gardínur í herbergi bræðra sem við mæðgur hönnuðum og útfærðum og er heildarkostnaður þeirra 2400 kr með uppsetningu... ekki amalegt það.
Hef ekkert að blogga mun og ég dauðfinn til í fingrinum svo best er að hætta að sinni.
gangið á guðs vegum 

föstudagur, júlí 23, 2004

Föstudagar eru góðir dagar í mínum huga.  Fór til tannsa í dag þar sem ég braut tönn í fyrradag.... hrakföllum mínum ætti því senn að ljúka...  Gúndi tannsi var kampakátur að vanda en hann er með málglaðari mönnum.  Hann segir mér alltaf frá húsinu sínu á Akureyri, spyr mig í hvert sinn hvar ég átti heima á Akureyrinni, leggur svo dóma á hverfi bæjarins og er það mér til happs að hann er hrifinn af brekkunni og þykirhonum sú syrði betri.  Hef hann grunaðan um að slá af nokkrum þúsundköllum vegna þess að ég er alin upp á réttum stað á réttum tíma, ekki amalegt það.
Fingurinn er að koma til en ég er enn í umbúðum.  Stefnan var tekin á ættarmót í Hannesar ætt á morgun en svo kemur það upp úr kafinu að Hannes langar bara ekkert á þetta mót og hefur þess í stað ákveðið að keppa í golfi á Selfossi.  Eg er þvi að hugsa um að taka stefnuna á Oddsholtið til mömmu, taka með mér efni í gardínur og hugga mér með mömmu og drengjunum mínum meðan Hannes gengur sig upp að herðablöðum í golfi.
Pabbi er búinn að vera hjá mér alla vikuna mér til halds og traust við barnauppeldi og bleyjuskiptingar.  Bauð gamli upp á hangikjöt í gærkveldi með jafningi und alles.  Synirnir höfðu aldrei séð svona marga potta á eldavélinni áður. Í hádeginu í dag bauð hann svo upp á Vigni sem er fyrsta afbrigðið af heitum rétti og hefur sennilega tröllriðið saumaklúbbum sjötta áratugsins.  Til gamans læt ég uppskriftina flakka....

Vignir e. Óttar Einarsson (kryddfælu með meiri)

soðin hrísgrjón sett í botninn á eldföstu móti
hangikjötið skorið smátt og dreift yfir grjónin
jafningurinn smurður yfir smáttskorna hangikjötið
rifinn ostur settur yfir smurða jafninginn
hitað í ofni og hann stilltur á grill í lokin svo osturinn verður gullinbrúnn og ákveðin lykt leggur úr ofninum
Algegnt tilbrigði er að setja gumsið í tartalettur en þá er nú bara gert á hátíðar- og tyllidögum...

Njótið vel í rigningunni!

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Jæja
Þá er fingurinn að skána en þó er baugfingur og langatöng enn límd saman eins og sagt er.  Nú eru liðnir 5 dagar frá atburðinum en þetta vildi þannig til að ég var að ganga upp stigann í mínu eigin húsi þegar ég rek tánna i eitt þrepið og dett.  Þar sem ég var með Högnann í fanginu beyglaði ég fingurinn einhvern veginn, og endaði svo á slysó daginn eftir.  Sem betur fer sakaði Högna ekkert, hann brosti bara sínu blíðasta eins og honum er einum lagið.  Hins vegar er alveg saga að segja frá heimsókninni á slysó og þrátt fyrir einungis níu fingur í dag ætle ég að reyna að segja frá henni......
Nema hvað ég er spurð á kerfisbundinn hátt hvort eg hafi verið innlögð á sjúkrahús erlendis síðastliðna 6 mánuði og svara ég þvi játandi, þar sem Högni er nu bara 5 mán.  Verður þá uppi fótur og fit og kallað fram "Mósatilfelli á biðstofu....." nú fyrir þá örfáu sem ekki þekkja til, er um að ræða sjúkrahússýkla sem finnast á sjúkrahúsumum í útlöndum en  ekki hér á landi, og skiljanlega vilja þeir ekki fá þessa sýkla hingað.  Ég var því sett í einangrun, med det sammeen var þó ég væri ekki fyr og flamme, þar sem geimverur meðhöndluðu mig með hönskum og möskum.  Allt sem ég kom við var sprittað og mér leið eins og ég væri með holdsveiki.  Skiptir það engum togum að þegar kemur að þvi að ég fari í myndatöku kemur sjúkraliði sem á bjagaðri íslensku segir mér að fara í geimverubúning, treður mér í hanska, setur á mig maska og pínir mig til að setjast í hjólastól.  Mér er svo ekið upp á röntgen þar sem allt hafði verið plastað þar sem von var á þessari holdsveiku manneskju.  Röntgentækirinn var nú hálf hissa á að sjá mig koma í hjólastól og þegar við fórum að spjalla og upp komst að ég hafði verið á fæðingardeild á norðurlöndum hló hann að öllu tilstandinu.  Þessi Mósasýklar fyrirfinnast víst einna helst í stríðshrjáðum löndum....  en allur er varinn góður...  þegar ég var svo að borga hvítuna úr augunum við brottför kallar símastúlkan, "mósi var að greiða" og hlaupa þá til litlar sætar tælenskar konur með sprittbrúsana og sptitta allt sem ég kom við.  Gestir á biðstofu litu niður og forðuðst mig sem heitan eldinn þegar ég settist niður til að bíða eftir bónda minum svo ég sá mér þann kost vænstan að hverfa af vettvangi og bíða úti í blíðunni eftir að vera sótt úr þessari undarlegu heimsókn á slýsó...
guð veri með ykkur!!!!!!!!!!!!!

sunnudagur, júlí 18, 2004

mun ekki blogga mikið næstu daga er fingurbrotin, beygluð og aum á þeirri hægri, mér til mikillar armæðu.....
verð þvi að biðja guð í það minnsta að blessa mig þessa dagana

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Nú hafa synirnir lokið sundnámskeiði á vegum SH með miklum glæsibrag. Í gær var okkur foreldrum boðið að fylgjast með kennslunni og mættum við hjónin galvösk á svæðið. Mér til mikillar gleði og ánægju var kennari alveg frábær og hafði mikinn aga á krökkunum. Þau mændu á hann með aðdáun og við hvert "hebb" syntu þau sem selir fram og til baka eins og ekkert væri sjálfsagðara. Enginn var í kafi þegar kannarinn talaði og enginn með stæla. Ætla mætti að hér væri um brúnaþungan og skapmikinn kennara að ræða en svo er ekki. Þetta er hinn blíðlegasti piltur (ja ca 25!!), mjög líkur Ken hennar Barbyar en þó með þetta skemmtilega ungmannafélags look. Hann talar á rólegum nótum við börnin, situr á hækjum sér og er með einn aðstoðarmann per barn ofan í lauginni sem ganga með þegar krakkarnir synda og rétta þau af í baksundinum og sonna..... Já, ég sem hafði hneykslast og æst mig yfir verðlaginu (kostar 4500 per barn og 800 kr systkinaafsláttur), hringt í nærliggjandi bæjarfélög og gert verðsamanburð sem var Hafnfirðingum ekki hagstæður. Ég var nefnilega alveg viss um að þetta væru bara svik og prettir, einhverjir krakkarbjálfar myndu kenna sem leyfðu börnunum að leika sér allan tímann og væru bara í fullu starfi við að vera með tyggjó. Ég þoli nefnilega ekki þegar börnum er boðið upp á hvað sem er sem kennara. Alveg eins og allir geti bara kennt, bara af því að þeir eru góðir í íþróttinni, samanber þegar systursonur minn var í skákskóla og einhver stórmeistarinn leiðbeindi, en hann kunni enga pædagogik ....en hann var stórmeistari það vantaði ekki en um það snýst bara ekki málið.
Sundfélag Hafnarfjarðar á hrós skilið fyrir vandað námskeið og faglegan leiðbeinanda. Hef skráð synina á framhaldsnámskeið og borgað fyrirfram með glöðu geði 8200 krónur fyrir 9 sinnum 40 mín.
Guð blessi skriðsundið, baksundið og bara allan pakkann!!!!!!

mánudagur, júlí 12, 2004

Guð, ég var svo glöð að kíkja á bloggið mitt í dag og sá þá að einhver hafi sent mér comment.... takk Silja mín...
Nema hvað við stórfjölskyldan fórum í útilegu um helgina upp í Reykholt í Biskupstungum í blíðskaparveðri á föstudaginn. Reistum við tjaldvagninn við þónokkra erfiðleika en með sjáfsaga og senheldni okkar hjóna komst vagninn upp og leit bara býsna vel út, þó ég segi sjálf frá. Við hefðum kannski átt að líta til beggja hliða eins og kennt er í umferðaskólanum því við höfðum valið okkur stæði við hliðina á þukkarokkurum af guðs náð, sem létum tónlistina dynja á manna allan daginn og reyndar nóttina lika. Var tónlistin oft svo há að menn urðu að kalla sín á milli til að ná sambandi og eftir því sem leið á nóttina urðu menn háværari og þugarokkaðri ef svo má að orði komast. Lítið bar þó á rokkurunum uppúr sjö morguninn eftir þegar synirnir úr Stekkjarhvamminum fóru að praktisera, eta morgunverð og sparka bolta. Við biðum þolinmóð þar til klukkan 10 og skellum okkur þá í þessa líka dýrindis sundlaug. Amman birtist svo með bland í poka og sápukúlur við mikla lukku, sérstaklega óttars sem hellti sínu niður eða drakk það, ekki alveg ljóst hvert sápuvatnið fór!!!!!!!!!! Mamma bauð okkur í kvöldmat og við sáum okkur þann kost vænstan að taka niður vagninn þegar hópur af kantrý fólki birtist með tilheyrandi kábojhöttum og hestaólar um hálsinn.... leist okkur ekki á blikuna og heldum í Oddsholtið þar sem tekið var á móti okkur með kostum og kynjum að ætti ættmóðurinnar. Var viðbúnaðurinn svo mikill að við enduðum á að gista í bústaðnum þar sem mátti heyra saumnál detta að ógleymdum heimilslegum hrotum húsráðenda. Um hádegi á sunnudag var svo haldið heim á leið í Laugardalslaugina með prinsana fjóra og var þetta í fyrsta sinn sem Högni fór í sund og var hann auðvitað langflottastur allra. KOnur jafnt sem karlar dásömuðu hann í pottinum og minnst fjórar rússneskar konur gláptu á okkur í sturtunni og áttu ekki til aukatekið nísníbrasní yfir prinsinum.
Sum sé góð og skemmtileg helgi hjá stórfamilíunni í Stekkjarhvamminum.
Segi þetta gott í bili og bið guð að vera með ykkur......

föstudagur, júlí 09, 2004

Þá er þetta bara allt að koma hjá mér. Systurnar Silja og Þórdís komu og tóku lúkkið á blogginu í gegn sem og komu þær commentakerfinu í lag. Ég er allt önnur og líður eins og ég hafi verið í mikilli endurhæfingu!!!
Sólin skín á Hafnfirðinga í dag og er ætlunin að taka sig upp og leggjast í útlegð þessa helgina. Bauðst tjaldvagn um helgina svo maður er búinn að fara í Bónus og kaupa allar lífsnauðsynirnar fyrir útileguna. S.s. nammi, gos, flögur, pylsur, dulbúið kjötá grillið, kartöflusalat með mæjói, kex og síðast en ekki síst uppþvottabusta. Drengirnir eru að vonum spenntir og fórum við áðan í KB banka til að fá einhverja Latópeninga svo í Hagkaup að kaupa alls kyns latódót, vatn, tannkrem og skyr svo eitthvað sé nefnt. Er stolt af mér að kaupa ekkert annað og greiða eingöngu með latópeningum, því þetta er auðvitað með ráðum gert svo foreldrarnir kaupi nú einhvern óþarfa í leiðinni.... en ég læt ekki glepjast.... ég hreinlega neita að versla í Hagkaupi eða Hagkaupum, hvað sem þessir andsk. kalla sig......
En mér er ekki til setunnar boðið, verð að fara að pakka fyrir familínua stóru....
Í guðs friði um helgina sem og aðrar helgar!

Plís koma með comment.....

mánudagur, júlí 05, 2004

jæja