Háfleygt úr Hafnarfirðinum

Vangaveltur og veruleiki

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Jæja, Þá er maður einu syninum ríkari og er það dásamlegt. Drengurinn kom heiminn á miklu spani loksins þegar hann ákvað að láta sjá sig. Vó hann 4110 gröm eða 16 og hálfa mörk og var 56 sentimetrar á lengd. Fæðing gekk fljótt og vel og kom hann í heiminn eins og súpermann með höndina meðfram höfðinu.... æsingurinn var svo mikill að ljosmóðirin náði ekki að fara í nema annan hanskann.
Móður og barni heilsast vel, en móðirin verður þó að játa að þetta er ansi barnmargt heimili, þar sem alltaf er lif og fjör. Skólastrákarnir hafa verið í vetrarfríi þessa vikuna en Óttar fer til sinnar dagmömmu sæll og glaður dag hvern.
Hér er farið að vora þótt enn sé stundum næturfrost. Pakkað er í einn og einn kassa svona þegar lausar stundir eru. Von er á mömmu á mánudaginn sem mér telst til að sé bolludagurinn, en slikan dag nefnir maður ekki á nafn hér í Danaveldi, til að fyrirbyggja allan misskilning. Á mínu bernskuheimili var settur karamellubúðingur frá Royal inn í sumar bollurnar og verð ég að segja að mér finnst það ægileg gott. Spurning um hvort ég biðji ekki mömmu að taka með sér svo sem eins og einn pakka af Royal!!!!!!!!!!
Nú sofa yngstu bræðurnir á bænum, Jóhann er á leið í sund og Aðalsteinn og Hannes fóru í hvítvöruleiðangur. Það væri því skynsamlegast af mér að leggja mig stundarkorn í stað þess að sitja við tölvuna. Ég bið því guð að vera með ykkur lesendur góðir, þangað til næst.

miðvikudagur, febrúar 11, 2004

Og enn er ég með barni....... hvurnig sem á því stendur..... en ég hef svo sem aldrei heyrt um konuna sem fæddi ekki barnið, svo einhvern tímann kemur nú að þessum ósköpum.. verð sett í gang eins og gömul skódadrusla á mánudaginn næsta, ef ekkert barn verður komið...

Annars er vorlegt um að litast í Danaveldi enda vorið á næsta leiti ef marka má almanak þeirra Dana. Í lok mánaðarins er svo fastelavn og hafa drengirnir fengið sína búninga. Reyndar finnst mér þeir svona doldið þunglyndislegir því Jóhann er beinagrind og Aðalsteinn kolsvartur draugur. Óttar minn Páll mun hins vegar vera Bósi Ljósár og er búningurinn af minni gerðinni og því er um ansi ýturvaxinn Bósa að ræða. Sjálfa dauðlangar mig í súmóglímukappabúning sem hægt er að pumpa í..... aldei að vita hvenær manni er boðið á grímuball. Skilst að Bekka sé ekki búin að ákveða neitt þema í afmælið sitt svo þetta er hugmynd.......
Þegar ég var lítil var ég Líina langsokkur nánast undantekningarlaust. Mamma setti blómavír í flétturnar svo þær stóðu beint úr í loftið. Varla hægt að vera meiri ekta Lína, erfiðara verður að vera Ruth Reginalds samkvæmt Fréttablaðinu. Á hreinlega ekki til orð í eigu minni að barnastjarnan af grísku ættunum skuli láta sér detta þessi vitleysu í hug, að fara í lýtaaðgerð og það í beinni útsendingu. Eru ekki takmörk fyrir hégómanum og vitleysunni.

Eftir að hafa lesið ævisögur samkvenna minna Ruthar og Lindu Pé þakkar maður bara guði fyrir það að vera ljótur og laglaus...........
Gangið á guðs vegum

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Já, ég er enn ólétt og verð það sennilega um ókomna tíð, svei mér þá!!!!!!!
Er orðin þreytt á biðinni og þrjóskunni í barninu að vilja ekki koma út í þennan annars ágæta heim.
Annars er hugurinn kominn hálfa leið heim og við hjónin farin að skipuleggja innanstokksmuni okkar í svítunni í Hafnarfirðinum. Flísar og fúgur komnar í bílskúrinn, það vantar bara ekkert nema að barnið komi í heiminn og við getum farið að skipuleggja framhaldið.
Á föstudaginn var, var danksa júróvísionkeppnin haldin við miklar dýrðir og sá sem bar sigur úr bítum á íslenskan föður. Ekki laust við að þjóðrembingurinn hafi látið á sér kræla. Við héldum að sjálfsögðu með honum og sendum honum okkar stig. Við höfðum líka afar gaman að því hve mikið var gert úr þessu í Mogganum. Íslendingur mun syngja fyrir hönd Dana í söngvakeppni sjónvarpsstöðva í maí. Hins vegar kemur í ljós í dönskum blöðum að hann er nú fæddur í Danaveldi og talar því miður enga íslensku og hefur aldrei komið þangað!!!!!!!!!! DV var öllu djarfara og sagði að íslensku hommi mun syngja fyrir Danina í júróvision. Fyndnar og ólíkar fyrirsagnir.
Eitthvað er nú kommentin að klikka á síðunni minni og verð ég að gera eitthvað í þeim málum hið snarasta.
Hef svo sem ekkert að segja, nema að geðheilsan hefur oft verið betri, men den tid den sorg.....
Gangið á guðs vegum

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Já, ekkert bólar á barninu!!!!!!!!!
Um daginn upplifði ég augnablik sem ég held að samsvari því þegar krakkar fengu sinn fyrsta kandísmola í gamla daga. Það var nefnilega þannig að Jóhann sonur minn og krúttmoli með meiru, hafði safnað sér þónokkrum aurum, bæði hafði minn maður misst tönn, afar og ömmur verið í heimsókn og svo hafi hann leigt út herbergið sitt fyrir 20 kr. vikuna. Það var því þó nokkur upphæð sem minn maður hafði milli handa í ákaflega velgeymdu veski. Hann ákvað að fjárfesta í stórum legópakka upp á 200 kr. Svipurinn á honum þegar hann rétti konunni peningana og stoltið sem skein úr augum hans var svo dásamlegt. Stúlkan við kassann var að mínu viti ekki eins upprifin af þessum fjárútlátum drengsins og sýndi litil sem engin viðbrögð þegar þessi fallegi, ljóshærði drengur reiddi fram aurana sem hann hafði safnað, með þvíliku stolti og beið þolinmóður eftir arðmiðanum. Upplifunin að borga úr eigin veski var jafn mikilvæg og að eignast dótið svei mér þá. En falleg minning sem móðirn geymir í huga sínum um ókomna tíð.

Í þessum orðum er bóndi minn að horfa á sitt lið, Tottenham, spila í ensku bikarkeppninni. Ég vildi nú ekki gera honum það, enn einu sinni, að eiga barnið rétt á meðan, enda hefur hann misst af einu þremur leikjum með liðinu vegna fæðinga sona sinna eða skírna þeirra. Nú hefur hann fagnað nokkrum mörkum en staðan er jöfn svo allt getur gerst. Nú blótar hann og ragnar og útskýrir fyrir daufum eyrum mínum, aukaspyrnur og brot!!!

Pabbi, þessi elska, er búinn að vera, ásamt Eiríki, að undirbúa pússningu í Stekkjarhvamminum svo brátt geta málarnir mætt með sitt kiló af sparsli og hafist handa við að jafna hraunið. Hafnfirðingar hafa eitthvað misskilið þetta með hraunið og eru bæði með það út og inni. Stefnan er svo tekin á að mála þegar við komum og leggja parket. Svo verður bara gamana ð hengja upp og koma sér fyrir og vonandi verðum við að gestaboðshæf um páskana!!

Ja, nú er illt í efni, Tottenham er marki undir og bóndinn alveg að fara á límingunum. Best að huga að heilsufari hans og strjúka honum um vangann.
Guð blessi Tottenham.......