Háfleygt úr Hafnarfirðinum

Vangaveltur og veruleiki

miðvikudagur, desember 17, 2003

Á morgun kemur pabbi og er mikil tilhlökkun á bænum. Í kvöld, eftir úrslitin í hinu danska IDOL, á að innrétta herbergi fyrir hann þar sem þeir nafnar eiga að vera saman..... alveg útpælt af okkur hjónum því oftast vakanr Óttar Páll með fyrstu mönnum hér á bæ.

En jólin nálgast, ekki er því að leyna, en enn er hér allt á kafi í drullu og skít, finnst einhvern veginn ekki taka því að taka til, svona rétt jólin!!!!!

Strákarnir eru kátir og Jóhann hefur enn sem komið er sloppið við að fá kartöflu í skóinn. Ég hef bara ekkert að skrifa um, svo það er best að hætta þessu rugli og skella kalkúnabringunni í sósuna og demba diskum og amboðum á borðið.... það þarf víst alltaf að borða hvort sem jólin eru á næsta leiti eller ei...........

mánudagur, desember 15, 2003

Í morgun var bara kuldalegt um að litast í henni Álaborg svo það má segja að það hafi verið það jólalegasta undanfarið. Ég dólaði mér þó lengi fram eftir í bólinu mínu og las. Skellti mér svo í Storcenter og greip með mér eitt og annað til að aðstoða jólasveinana og svo rakst ég á DVD með engum öðrum en Barabappa og fjölskyldu . Einn hér Barbaþór, annar Barbasnjall, svo voru líka Barbaljóð, Barbavæn og Barbafín og einhverjir fleiri, man ekki alveg hve mörg ssystkini þetta voru. En ég las þetta fram og til baka fyrir systkinabörn mín í Bjarkarstígnum hér á árum áður. Kannski það rifjist upp fyrir þeim??

Hangikjötið kom frá tengdó í dag og er það í ár frá KEA sjálfum. Hún klikkar náttúrulega ekki á grænu baununum handa Hannesi sínum!!!! Jólagjafir eru að berast hingað smátt og smátt en kortin eru seinna á ferðinni. Ég er alveg eins og krakki í sambandi við jólakortin. Tel þau reglulega og spái í utanskriftinni, frá hverjum skyldi þetta eða hitt kortið vera. Eiginlega er ég mun æstari yfir kortunum en pökkunum. Í ár hafa borist innan við 10 kort sem er nokkuð gott miðað við dagsetningu og að flest kortin eru frá Íslendingum sem þekktir eru fyrir að vera með seinni skipunum. Svo ég uni hag mínum vel enn sem komið er.

Mikið er um jólahygge-stundir hjá sonunum næstu vikuna með alls kyns pakka og gotterísstandi. Danir geta ómögulega átt góða stund ef ekkert er sælgætið. Merkilegt nokk, ekkert smákökumaul!!!!!!!!!!!

Svo stendur fyrir dyrum kirkjuferð á vegum skólans og neitar nú Jóhann að fara í kirkju. Hann segir að vinir sínir Sakkerías og Surmedad frá Sómalínu sleppi við það og það hafi hann líka hugsað sér að gera. Segir að það sé hundleiðinlegt í krikjunni og hann hafi margsinnið farið með leikskólanum og það hafi alltaf veri hundekedeligt!!!! Mér er um og ó og veit svei mér ekki hvernig á að taka á þessu máli. Ræddi þetta við nágrannana dönsku, sem fannst gott að drengurinn væri með skoðanir og ekki tilbúinn að trúa hverju sem væri..... ég er hins vegar miður mín og mín eina vona er að pabbi taki sig að kristilegum hluta uppeldisins því ekki vill drengurinn trúa sögu móður sinnar um fæðingu frelsarans. Hver heldur þú að sofi í fjárhúsi mamma?? Af hverju fóru þau bara ekki eitthvert annað? Áttu þau ekki tjald?? Ég trúi þessu sko ekki??? Hann var heldur ekki stór þegar hann vildi segja PIKATJÚ í staðinn fyrir Amen eftir Faðir vorinu. Samt fer ég með bænir með honum á kvöldin eins oft og auðið er og hann virðist hlusta. Kannski er hann bara svona gagnrýninn dengurinn eða mér hefur algjörlega mistekist í kristilegu uppeldi þessa drengs. Aðalsteinn minn er með þetta allt á hreinu enda gekk hann í sunnudagaskóla á Íslandi hjá henni séra Helgu Soffíu. Eitt sinn hafði Gylfi leyst Helgu Soffíu af. Hann ekki í hempu og kunni ekkert að spila á gitarinn, þótt Aðalsteini lítið til hans koma. Næst þegar við mætum í sunnudagaskólann var Helga Soffía mætt í öllum sínu veldi þá segir Aðalsteinn: Hjúkk, mamma presturinn er kominn og kallurinn er farinn!!
Guð veri með ykkur!

föstudagur, desember 12, 2003

Jæja, þá er enn einn föstudagurinn runninn upp bjartur og fagur. Stekkjarstaur hafði viðkomu hér á bæ sem og á flest íslensk heimili. Urðu menn glaðir með sitt en einhvern veginn held ég að sumir séru farnir að efast um tilvist þessara manna. Þó spurði Aðalsteinn, sem er á 10. ári, mamma heldur þú að hann sjái skóinn ef ég set hann á ofninn og er ekki betra að hafa gardínunar pínulítið upp??? Mér fannst þetta bæði krúttlegt og sorglegt. Börnin gera foreldrum sínum það til hæfis að trúa á jólasveininn fram eftir öllu af ótta við að fá engar skógjafir. Kannski er danska aðferðin betri, með kalendergjöfum eða aðventugjöfum þar sem hegðun og trú er engan veginn tengd gjöfunum. Á mínu bernskuheimili var aldrei gefið í skóinn. Jólasveinn átti greinilega aldrei leið um Víðilundinn á Akureyri. Samt minnir mig að Gunna syst hafi einu sinni af vorkunsemi sett kattartungu í skóinn minn!!! Hins vegar fengum við fullan sokk af íslensku sælgæti á aðfangadag. En þrátt fyrir allar uppeldiskenningar og vangaveltur um skógjafir verð ég að viðurkenna að jólasveinninn er afar gott agatæki í desember þegar maður á oft á tíðum lítinn tíma aflögu og þolinmæðiskvótinn alveg á þrotum enda langt liðið á árið. Mínir synir leggja sig í það minnsta fram við að vera blíðir og góðir frá og með 11. desember. Jóhann minn notaði tímann vel fram að því, a.m.k. í ár, afar vel og var við það að gera foreldra sína gráhærða.

Í þessum skrifuðu orðum eru þeir feðgar að höggva jólatré í næstu sveit. Ætli ég skelli ekki dönskum eplaskífum í ofninn og bíði þeirra með heitt kakó, eplaskífur með sultu og flórsykri og kertaljósi.... varla hægt að vera jólalegra.

Jólakveðjur í alla bæi!

miðvikudagur, desember 10, 2003

Jæja, þá fer maður að ráðum viturrar föðursystur og lætur gamminn geysa í WORD. Hef nú ásamt elsta syninum bakað þjár sortir af smákökum við mikla lukku heimilismanna. Búið að setja útiseríu í nornatréð og skella einni grein af áðurnefndu tré upp í loft í stofunni en í henni (sko greininni) mun svo hanga heimagerðir engla af öllum stærðum og gerðum vonandi gestkomandi til mikillar gleði og yndisauka.

Í dag var hiti við frostmark og er það bara það jólalegasta sem gerst hefur að undanförnu. Lá í bælinu fram eftir degi og las Yfir Ebrofljótið sem er afar þægileg bók. Er nýbúin með Höll minninganna og verð ég að endurskoða álit mitt á Ólafi Jóhanni, því mér þótti bókin lúf og vel skrifuð. Æ, það hefur eitthvað farið í taugarnar mér að einhver bissnesgæi úr henni Ammmeríku geti skrifa !!! En maðurinn er án efa mikill og góður rithöfundur þrátt fyrir að ala manninn í Ameríku. Kannski er þetta einhver Kanafordómar sem maður fékk í uppeldinu sem brjótast svona fram í manni, veit ekki!!!

Jóladress bræðra eru nú loks komin í hús eftir miklar “býttingar” og mátanir. Það er eitt af því sem er svo frábært hér í Dk að maður má skila öllu og maður fær alltaf peningan til baka án þess að afgreiðlsukonan horfi á mann eins og maður hafi í fyrsta lagi stolið vörunni eða sé að reyna að snuða búina á einn eða annan hátt. Er þetta örugglega keypt hér? Var það á útsölunni? Þá er ekki hægt að skipta!!!! og svo videre. Í þeirri annars ágætu búð H&M stendur skýrum stöfum Vi bytter med smil!!! Eitthvað sem við Íslendingar ættum að taka okkur til fyrirmyndar MED SMIL. Mér er það minnisstætt að þegar Óttar minn Páll var nýfæddu og við komum í heimsókn til Ísland fær hann að gjöf forlátan náttgalla sem reyndist of lítill á minn stóra víking. Nú þá lá leið mín í Hagkaup til að fá stærra nr. En þar sem gallinn var ekki til í stærra númeri mátti ég ekki skila honum nema ég fyndi eitthvað sem kostaði nákvæmlega það sama og gallinn gerði á útsölunni!!!! Nú ég leita og leita og finn ekkert. Eftir langa mæðu finn ég peysuræfil sem kostaði 400 meira en gallinn, en það mátti ekki, þetta varð að vera nákvæmlega sama upphæðin!!!! Mér var allri lokið, fór út með minn galla og sagði myndi senda forstjóra Hagkaups hann í þeirri von að hann gæti notað hann. Auðvitað varð ekkert úr því að ég sendi gallann og nú bíður hann þess að næsti erfingi geti notað hann strax eftir fæðingu!!!!!!!!!!!
Já, þannig fór um sjóferð þá!!!!!!!

þriðjudagur, desember 09, 2003

Var búin að blogga og það hvarf.............. er því súr og skirfa ekkert meir..........

mánudagur, desember 08, 2003

Þá er margþráður dagur runninn upp - ég er komin í barnsburðarleyfi! Jibbí....
Svaf til hálf ellefu, las til 12 og hef svo verið að dóla mér það sem af er degi og finnst það ekki leiðinlegt þannig sér.

Reyndar hef ég tekið eitt kast í dag við frumburðinn minn fallega sem getur stundum alveg farið með mig. Hann er svo feiminn að hann þorir ekki að skila bókasafnsbókum nema á fimmtudögum, setur þær samt ekki í skúffuna sína heldur rogast með þær fram og til baka upp á hvern dag. Hann þorir ekki að spyrjast fyrir um húslyklana sem hann týndi á skirfstofu skólans, hann þorir ekki að sýna kennaranum kontaktbókina og svo videre. Þoli ekki að ég treysti honum fyrir einföldum hlut og hann klikkar á því. En eftir skammir og svívirðingar tók ég á honum stóra mínum og fór að hjálpa honum að taka til í herberginu sínu svo ég gæti nú boðið honum með í Bilka því hann efur svo gaman að því enda jólabarn fram í fingurgóma. Jú, jú ég hefst handa við röðun bóka og Andrés blaða, geng frá tölvuleikjum í tugatali og ætla jú að vera svo yndisleg að búa til ný hulstur fyrir hann utan um þá leiki sem eru viðskila við sín hulstur og það eru nú þónokkrir.... nema hvað er drengurinn sendur að ná í límið sem hann var að nota í gær................ en viti menn.... hann finnur það ekki og þá var mér allri lokið. Hvernig er hægt að vera svona komin á 10. ár????? Týna og gleyma öllu sem hann kemur nálægt!!
Sit sem sé nú með öran hjartslátt vegna þess hve ég er leiðinleg við hann og eys úr skálum reiði minnar á blogginu. Samt endar alltaf með því að ég gef mig og ræði við hann og honum er fyrirgefið............. hann þarf sem sé aldrei að súpa seyðið að neinu.......... er það rangt eða rétt uppeldislega séð???????????? Já, þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.

Það er sem sé úr mér allur vindur, ég hafði hugsað mér að jólast með sonunum. Vildi ég gæti spólað til baka og byrjað daginn upp á nýtt. En svona er lífið - maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér!!!!!!!!!!

Af gefnu tilefni; Guð gefi mér þolinmæði!

þriðjudagur, desember 02, 2003

Ekki getur maður kennt bloggfýlu um aftur, heldur er um að ræða leti, ómennsku og heilsubresti. Hef verið hálf tussuleg, eins og sagt er, síðan um helgi með ælupest og tilbehør og því ekki sest við tölvuna að undanförnu. Ætla að gera bragarbót á því.

Ég á eftir að vinna í tvo daga og þá er ég komin í langþráð barnsburðarleyfi. Ætla ég mér að vera ofur jólalega mamma, baka fjöldann allan af smákökum, skreyta sem óð manneskja og vera gefandi og fræðandi móðir sona minna allan desember. Góð markmið það, en spurning er svo um emdir.

Passaði litla rauðhærða 3ja mánaða stelpu í dag sem ég gæti alveg hugsað mér að eiga. Sat yfir mömmu hennar í prófi í fjarnánmi - maður finnur sér alltaf eitthvað að gera....

Í gær var fællesspisning hjá Jóhanni og hans bekk. Tróðu börnin upp með söng og þulum sem þau þuldu upp tvo og tvo saman. Jóhann var með sætustu stelpunni í bekknum, sem var í jólakjólnum sínum með bleika spöng í hárinu, í nælon og allt. Fóru þau með heillanga romsu og vorum við að deyja úr stolti yfir litla miðjukrúttinu sem alltaf er að koma okkur á óvart.

Óttar er byrjaður hjá nýrri dagmömmu eftir mánaðardvöl heima með föður sínum. Eftir 5 mín aðlögun gekk hann með pabba sinn að útidyrahurðinni og sagði VI SES.... þar með lauk hans aðlögun.

Aðalsteinn er byrjaður að föndra og kom alsæll heim með froðuplast sem hann vinnur í nótt og dag að rífa niður til að nota sem snjó í kertaskreytingar, móður sinni og föður til mikillar ánægju!!!!!

Stefán Stefánsson stórbóndi og góðvinur okkar er hjá okkur um þessar mundir og leigir Jóhann honum herbergið sitt fyrir 20 kr á viku. Í þessum skrifuðum orðum er hann að undirbúa matinn, dýrindis nautagrillsteik með alls kyns gummilaði. Merkilegt hve Hannes er myndarlegur aðstoðarmaður í eldhúsinu þegar Stefán er annars vegar, hann flysjar kartöflur, vaskar upp og fer með ruslið eins og ekkert sé.... ég kannast ekki alveg við þessa aðstoðarmennsku en batnandi mönnum er best að lifa!!!!

Jæja nú er ilmurinn af steikinni að æra mig svo það er best að segja hér staðar numið og bíða með frekara blogg þar til síðar.

Elskurnar mínar gangið á guðs vegum hvort sem er á Íslandi eða Barcelona!!!!!!!